JÓNA FANNEY – FRAMBOÐ TIL FORMANNS FÉLAGS LEIÐSÖGUMANNA 2023

JÓNA FANNEY –

FRAMBOÐ TIL FORMANNS leiðsagnar 2023

Þegar hljóð og mynd fara ekki saman 

– um mikilvægi framtíðarsýnar

 

Jóna Fanney Friðriksdóttir

Jóna Fanney Friðriksdóttir

Á tímum örra og kvikra breytinga samtímans getur ekkert fyrirtæki né félag leyft sér að ráfa stefnulaust um og byggja sinn grunn á geðþóttaákvörðunum og dagsformi þeirra sem að störfum koma.

Stefnumótunarvinna er gríðarmikilvæg fyrir félagið í dag og reyndar leyfi ég mér að fullyrða að um lífsspursmál sé að ræða fyrir Leiðsögn að farið verði í slíka vinnu sem fyrst.

Félaginu vantar skýra framtíðarsýn sem byggir á vel skilgreindri stefnu og áherslum með það að markmiði að allir þættir í starfi félagsins verða unnir á skilvirkari og árangursríkari hátt.

Mest um vert er þá að tryggja að ólík sjónarmið félagsmanna komist að, því aðeins þannig komumst við í raun að því, hvað það er sem er mikilvægt í starfsemi Leiðsagnar og hvað leggja beri áherslu á.

Að mínu mati endurspeglast stefnuleysi Leiðsagnar í dag vel þegar rýnt er í lög félagsins, heimasíðu og innra skipulag. Það fer eftir því hvar borið er niður, hvort meginstefna félagsins sé að vera stéttarfélag eða fagfélag.

Dæmi hér um: Þegar félagsmönnum berst tölvupóstur er yfirskrift sendanda: Leiðsögn – Stéttarfélag leiðsögumanna og sömu yfirskrift er að finna í flipa heimasíðu. Í 1. gr. laga félagsins segir hins vegar: Félagið heitir Leiðsögn – Félag leiðsögumanna.

Þegar rýnt er í lög Félags leiðsögumanna, lúta fimm af sex meginþáttunum sem nefndir eru undir tilgangi félagsins að faglegum þáttum. Aðeins einn liður af þeim sex þáttum sem mynda markmið félagsins lýtur að stéttarfélagsmálunum.

Sé hins vegar litið á innra skipulag félagsins virðast starfsemin að mestu leyti ganga út á að sjálfboðaliðar sinni rekstri stéttarfélags sbr. myndin hér til hliðar sem ég rissaði upp → →

Í lögum Leiðsagnar segir um tilgang félagsins í sex þáttum:

a) Að sameina innan sinna vébanda alla sem starfa við leiðsögn ferðamanna, hvers kyns leiðsögumenn, fararstjóra og hópstjóra hér á landi svo og þá sem sendir eru til slíkra starfa frá Íslandi á vegum fyrirtækja með staðfestu á Íslandi.
b) Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör þeirra, aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á lagalegan og samningsbundinn rétt þeirra.
c) Auka gæði leiðsögustarfs með betri menntun og starfshæfni félagsmanna, og vinna að því að koma á menntunarkerfi fyrir leiðsögumenn með það fyrir augum að menntun þeirra verði í samræmi við evrópskar og alþjóðlegar viðmiðanir og að koma á raunfærnimati fyrir þá sem ekki uppfylla þær kröfur.
d) Að auka þátt leiðsögumanna í góðri umgengni um landið, náttúruvernd og vinna að bættu öryggi ferðamanna og leiðsögumanna þeirra.
e) Að kynna störf leiðsögumanna, efla samstarf þeirra innbyrðis og koma fram fyrir þeirra hönd á opinberum vettvangi hér á landi og erlendis.
f) Að setja siðareglur og gæðastaðla fyrir þá sem starfa að leiðsögn í ferðaþjónustu á Íslandi.

Hér virðist hljóð og mynd ekki alveg vera í takti.

Takturinn í samfélaginu er hins vegar sá að hvert einasta mannsbarn veit að ferðaþjónustan er ein af stærstu atvinnugreinum landsins og þjóðhagslegt gildi greinarinnar hefur aldrei verið meira en sl. áratug (mínus Covid).

Og í miðri góssentíð er félag leiðsögumanna landsins, sem m.a. hefur þann göfuga tilgang að sameina starfsstéttina og styrkja, líkt og stefnulaust rekald úti á hafsjó.  ♦

ps. af hverju var fagdeildin lögð niður…?

Mynd: Jóna Fanney Friðriksdóttir.

Smellið á myndina til að stækka hana.