JÓNA FANNEY – FRAMBOÐ TIL FORMANNS FÉLAGS LEIÐSÖGUMANNA 2023

JÓNA FANNEY –

FRAMBOÐ TIL FORMANNS leiðsagnar 2023

Leiðsögumenn: Brettum upp ermar!

 

Jóna Fanney Friðriksdóttir

Jóna Fanney Friðriksdóttir

-Starf leiðsögumanns með erlenda ferðamenn er í senn krefjandi og um leið ótrúlega gefandi. Leiðsögumönnum hlotnast sá heiður að sýna fólki, hvaðanæva að úr heiminum, stórkostlega náttúru landsins og kynna því sögu og menningu þjóðarinnar. Við erum sendiherrar Íslands og oftar en ekki  eini heimaaðilinn sem ferðalangar komast í kynni við.   

Þegar nýliðar í greininni spyrja mig ráða með hvað ég telji mikilvægt í starfi leiðsögumanna hef ég iðulega gefið þeim fá og einföld ráð: Vertu þú sjálf-/ur, lærðu að lesa „salinn“ og mundu að fólk er í fríi og ekki komið til landsins til að hlusta á langa fræðafyrirlestra. 

Góð kímnigáfa er nauðsynleg öllum leiðsögumönnum. Með góðu samtali við gestina og dassi af húmor náum við yfirleitt því besta fram í hópnum. Þannig eru leiðsögumenn brúarsmiðir í tvenns konar skilningi. Þeir byggja brýr milli ferðamanna yfir í menningu heimamanna, samtímis brúa þeir bilið milli ólíkra menningarheima innan hópsins. Góður leiðsögumaður er jafnframt góður sögumaður. Ein lítil fábrotin saga úr uppvextinum eða kræsileg draugasaga þegar þoka skyggir á útsýni, getur orðið að ógleymanlegri minningu fyrir gesti okkar.    

Starf okkar er þó ekki án áskorana, það krefst mikillar vinnu, endalausrar orku, árvekni og oft á tíðum töluverðrar útsjónarsemi. Leiðsögumenn þurfa stöðugt að uppfæra þekkingu sína og ekki er verra ef þeir eru með svarta beltið í væntingastjórnun.  

Það kemur í okkar hlut að takast á við óvæntar aðstæður, hvort sem um  veðurofsa og færð, neyðartilvik eða slys er að ræða. Þá er ekkert annað í boði en að reyna að bregðast rétt við. Starf leiðsögumanns er líkamlega en ekki síður andlega krefjandi.   

Þrátt fyrir urmul eiginleika og hæfileika sem góður leiðsögumaður þarf að vera prýddur eru launin með því lægsta sem greidd eru á íslenskum vinnumarkaði í dag. Það sem ýtir undir þann grunnvanda er að leiðsögumannastéttin á Íslandi er í dag tvístruð.  

Mér finnst kominn tími á það að við leiðsögumenn tökumst á við þennan grunnvanda. Sameinuð! 

Og þá skiptir engu hvort sérhæfing okkar liggi í  fjallaleiðsögn, ís-klifri, ökuleiðsögn eða öðru.

Allir góðir leiðsögumenn, hvort sem þeir koma frá Kópavogi, Raufarhöfn eða Ítalíu eru dýrmætir íslensku þjóðarbúi. Hvort að útskrift úr þessum eða hinum skólanum sé betri en önnur  til að teljast fullgildir leiðsögumenn innan Leiðsagnar – félags leiðsögumanna er umræða sem, að mínu mati er óboðleg í alþjóðasamfélagi 21. aldarinnar.   

Félag leiðsögumanna fer ekki með dagskrárvald í menntamálum landsins, það gera stjórnvöld. Það er hins vegar mikilvægt að Félag leiðsögumanna nái að sameina krafta leiðsögumanna þessa lands og beita sér ríkulega við að koma að námskrárgerð leiðsögumanna í örugga höfn innan vébanda ráðuneytis menntamála. 

Leiðsögumenn þessa lands, brettum upp ermar og sameinumst!