Bókun stjórnar Leiðsagnar um lækkað stöðugildi starfsmanns. Bréf starfsmanns til stjórnar að neðan.

 

Bréf Ragnheiðar Ármannsdóttur, skrifstofustarfsmanns eftir að stjórn tilkynnir henni lækkað starfshlutfall úr 100% í 50%.

Reykjavík, 22. október 2023.

Bt. stjórn og varastjórn Leiðsagnar félags leiðsögumanna.

Með einu pennastriki er starfshlutfall mitt lækkað í 50% og bætt í betur og sparkað í liggjandi mann með aðdróttunum um lélega frammistöðu þvert á ummæli fyrri stjórna og formanna sem lofuðu margoft störf mín! Hér er því vegið gróflega að starfsheiðri mínum í kjölfarið á undanfarandi einelti sem ég hef orðið fyrir í starfi mínu. Ég hef ekki verið beðin útskýringa á neinu hvað varðar starf mitt. Hvorki ný stjórn né formaður/framkvæmdastjóri hefur kynnt sér störf mín á skrifstofunni enda áhugi formanns lítill. Þetta eru augljóslega hreinsanir og það til að greiða veg núverandi formanns til stöðu framkvæmdastjóra með aðstoð gjaldkera.

Þar sem mér hefur ekki verið gefið tækifæri til þess að verja mig eru hér nokkrir punktar til umhugsunar.

  • Launahækkunin: Samkvæmt formanni/framkvæmdastjóra er launahækkun mín um 42 % á milli ára. Þetta eru ósannindi og launaseðlar sanna það. Laun mín voru hækkuð einu sinni á síðustu 4 árum og þá um 17,8 % (2022) og telst ég vera með miðlungslaun fulltrúa hjá stéttarfélagi. Allt annað voru kjarasamningsbundnar hækkanir (t.d. í feb. 2023) eða hækkun starfshlutfalls (2021 og 2022). Annaðhvort kann gjaldkeri/formaður ekki að reikna eða verið er vísvitandi að ljúga að stjórn. Fyrrverandi gjaldkeri lagði mikið á sig að tala við önnur stéttarfélög eins og VR og fá samanburð á launum fulltrúa þar og taldi að stéttarfélag ætti að gera vel við starfsfólk sitt og vera í fararbroddi með góð kjör. Sem skrifsstofustýra var ég án efa láglaunuð miðað við önnur stéttarfélög! Ein helsta ástæða hækkaðs starfshlutfalls míns var viðspyrna ferðaþjónustunnar eftir Covid en ekki kjarabrotamál.

  • Fjárhagsstaða félagsins: Enn önnur lygin!?. Ég hef góða yfirsýn yfir fjárhag Leiðsagnar og þekki skulda- og eignastöðu félagsins, sjóða og fyrirtækja mjög vel. Ég veit allt um rekstur félagsins, fastan kostnað og breytilegan o.s.frv.. Fjárhagsstaðan er góð og hef ég séð hana margfaldast eftir Covid, enda stendur ferðaþjónustan í blóma og innkoma eykst í takt við aukna veltu greinarinnar og hærri laun leiðsögumanna alias hærri iðgjöld. Síðasta sumar 2023 er t.d. næstfjölmennasta ferðamannasumar frá því að mælingar hófust. Hinsvegar er félagið ekki gróðarekið ehf. líkt og formaður/framkvæmdastjóri virðist halda en án efa þarf meira rekstrarfé til að standa undir launakröfum hennar sem framkvæmdastjóra og lögfræðikostnaði svo hún geti barið sér á brjóst.
  • Kjarabrotamálin: Ég tel það afar lágkúrulegt að vera klína óleystum kjarabrotamálum á starfsmann Leiðsagnar og tel gróflega vegið að starfsheiðri mínum og mannorði, og vera undirróður og rógburð. Ég bar EKKI ábyrgð á kjarabrotamálum sem voru aðeins eitt af mörgum verkefnum mínum á skrifstofunni. Yfirábyrgð á kjarabrotamálum var formanns og varaformanns/formanns kjaranefndar sem voru og eru tengiliðir við lögfræðinga, en ekki starfsmanns á meðalaunum stéttarfélaga. Ég hafði ekki umboð né var það í verkahring mínum að að fylgja kjarabrotamálum eftir til lögfræðings og stofna til fjárútláta vegna innheimtu þeirra. Upplýsingastreyminu var einnig mjög ábótavant og skrifstofunni var ekki einu sinni kunnugt um að lögfræðingurinn hefði hætt með málin fyrr en fyrir stuttu. Stærsta vandamálið við kjarabrotamálin er lélegur kjarasamningur frá 2019 en þá sat núverandi gjaldkeri félagsins, að því sem ég best veit, í samninga- og viðræðunefnd. Samningnum hefur verið lýst sem versta samningi frá upphafi þar sem kjör leiðsögumanna versnuðu mjög eins og t.d. veikindaréttur.
    • „Frammistöðumatið“: Allt bull um „frammistöðumat“ er eitt mesta rugl sem ég hef heyrt. Þetta félag væri ekki starfandi nema af því að ég hékk þarna áfram svo til launalaust fyrstu árin án þess að vera stöðugt að tíunda störf mín og hreykja mér af afrekum mínum. Ég dreg í efa að formaður/framkvæmdastjóri sé fær um að meta frammistöðu mína ekkert frekar en maður sem aldrei hefur haldið á hamri væri settur í að dæma sveinspróf í húsasmíði. En að sjálfsögðu er allt tínt til þegar fara á í hreinsanir. Ég leysi daglega úr fjölda kjaramála og leiðbeini fólki í gegnum síma og tölvupósta án þess að fara með það til lögfræðings og hef gert í fjögur ár og þurfti ekki starfslýsingar eða fundargerðir til þess að segja mér það. Mér er ekki kunnugt um að núverandi formaður hafi enn leyst nein kjarabrotamál enda vissi hún ekki einu sinni mun á bónus/dagpeningagreiðslum og launum fyrir einum mánuði. Auk þess skreytir hún sig með stolnum fjöðrum, tekur yfir kjaramálaútreikninga án þess að vita haus né sporð á þeim málum og eignar sér m.a. “forrit“ (excel skjal) sem undirrituð hafði gert vegna vinnustundaútreikninga og gerir að sínu; setti upp nýtt, ruglingslegt excel skjal og fyrirskipaði að það yrði notað. Síðan hóf hún útreikning að nýju sem leiddi til sömu niðurstöðu og undirrituð hafði fengið.

    • Titillinn skrifstofustýrakemur kjaramálum ekkert við en er flottur og virðulegri en „starfsmaður“ og var samkomulag mitt við fyrrverandi formann Leiðsagnar. Starfstitlar skipta máli (NB! kafli 3 í stjórnun!) en það ætti formaður/framkvæmdastjóri sjálfur að vita enda skreytir hún sig tvöföldum titli. Ekki hefði verið verra að fá laun í samræmi við titilinn!

    • Starfslýsingin: Í ráðningarsamningi mínum (2022) stendur orðrétt: „… að ég eigi að sinna almennum skrifstofustörfum. Umsjón með umsóknum í Sjúkrasjóð og Enurmenntunarsjóð. Greiðsla styrkja, reikninga, launa o.s.frv. Umsýsla skilagreina. Vinna við kjaramál þ.e. fyrirspurnir, launaútreikning fyrir launainnheimtu. Önnur verkefni að beiðni stjórnar og formanns Leiðsagnar.“

      Það kemur hvergi fram og mér var ekki ljóst að ég, sem starfsmaður, ætti að vera í stöðugum samskiptum við lögfræðing eða framkvæma launainnheimtu og taka málin alla leið fyrir dómstóla. Hvað kemur fram í fundargerðum er mér ekki kunnugt um enda innihalda þær ekki starfslýsingu mína. Ég hvorki sat stjórnarfundi, samþykkti fundargerðir né las þær. Það er búið að vera að undirbúa lækkun starfshlutfalls og tína til rökstuðning í nokkra mánuði af formanni/framkvæmdastjóra og gjaldkera sem þekkir fundargerðir manna best eftir nokkurra ára þras og rifrildi um þær og fann þar klausu sem hún reynir að nota til að koma höggi á mig.

    • Starfssvið mitt hefur verið mjög umfangsmikið og vinnuálagið það mikið að mér hefði ekki tekist ein að klára kjarabrotamálin. Útreikningur vinnutíma félagsmanna sem leita til félagsins vegna hugsanlegara kjarabrotamála er t.d. gífurlega tímafrekur. Fagdeildarmál hafa einnig tekið mjög mikið af vinnutíma mínum. Ég hef lagt mikla áherslu á að sinna félagsmönnum og félaginu að bestu getu og tel mig hafa unnið mjög vanþakklátt starf, á lágum launum mestan tímann, unnið mikla aukavinnu, oftar en ekki án þess að fá greitt fyrir og notað auk þess bifreið fjölskyldunnar í þágu félagsins án greiðslu fyrir í meira en 2 ár. Ég tók við starfi þar sem bæði frkv.stjóri og starfsmaður voru í 75 % starfi. Geri aðrir betur!

    • Framkoma formanns/framkvæmdastjóra: Formaður stundar ekki vandaða orðræðu og reynir sig við eitthvað í líkingu við óttastjórnun og hefur gert allt frá fyrsta degi þar sem fólki er ekki vandað kveðjurnar í tölvupóstum. Það er ekki sæmandi formanni/framkvæmdastjóra að tala sífellt starfsmann, sem vinnur af heilum hug fyrir félagið, niður. En tilgangurinn helgar meðalið og þessi framkoma er leið til þess að bola mér úr starfi. Þetta er ekkert annað en tuddaskapur og ég er ekki sú eina sem fær það óþvegið frá formanni/framkvæmdastjóra. Jafnvel lögfræðingar félagsins, þurfa að sitja undir árásum í tölvupóstum þegar þannig liggur á henni. Þetta er skólabókardæmi um hvernig á ekki að stjórna.

      Það er í raun stórhættulegt, og þá er vægt tekið til orða, og mannskemmandi, að starfa fyrir þetta félag sem virðist vart viðbjargandi með núverandi formann og gjaldkera í stjórn. Einelti fær að grassera og bæði starfsfólk og félagsmenn sem vilja starfa fyrir félagið hrökklast burt.

      Að lokum vil ég taka fram að stéttarfélag þar sem sem hægt er að kjósa í stjórn meðlimi sem greiða ekki iðgjöld til stéttarfélagsins er eitt það vitlausasta sem ég hef vitað um. Á Aðalfundi 2023 komu inn 4 meðlimir í stjórn (formaður, ritari, og tveir varamenn) sem höfðu ekki, og hugsanlega aldrei, greitt iðgjöld til Leiðsagnar og gera jafnvel ekki enn, enda líklegast í öðrum stéttarfélögum. Hluti þessara stjórnarmeðlima leggur nú dag við nótt við að eyðileggja félagið innan frá.

      Lækkun starfshlutfalls míns niður í 50% tel ég jafngilda tilefnislausri uppsögn og veldur stéttarfélaginu skaða. Ég kæri mig ekki um 50% starf hjá Leiðsögn – félagi leiðsögumanna frá og með janúar 2024.

      22. október 2023

      Ragnheiður Ármannsdóttir

      • M.A. Alþjóðasamskiptum með áherslu á smáríkjafræði þ.á.m. námskeið í samningatækni.

      • Diplóma í þýðingafræðum auk námskeiða til M.A. prófs.

      • B.A. í spænsku.

      • B.A. í frönsku.

      • Enska1árHÍ.

      • Námskeið á MA stigi í viðskipta- og tungumálanámi á MA stigi: Stjórnun I og II, Markaðsfræði I, þjónustumarkaðsfræði, rekstrarhagfræði, utanríkisviðskipti, reikningshald og upplýsingatækni.

      • Námskeið á Menntavísindasviði.