JÓNA FANNEY - FRAMBOÐ TIL FORMANNS FÉLAGS LEIÐSÖGUMANNA 2023
Hugleiðingar um innra
skipulag Leiðsagnar
Ég viðurkenni fúslega að ég hef eytt töluverðum tíma í grúsk til að reyna að átta mig á því hvernig innra starfi félagsins er háttað. Það eru þá helst lög félagsins sem ég hef reitt mig á en í þeim er þó að finna ósamræmi t.a.m. hvað varðar framboðsfrest (gr. 12, gr. 21 og gr. 30). Ég hef það frá varaformanni að þessu verði kippt í liðinn með lagabreytingum á komandi aðalfundi, 3. maí nk.
Fyrir utan lög félagsins er tiltölulega erfitt að átta sig á skipulaginu út frá heimasíðunni. Ég dirfðist þó til þess að gera tilraun með að setja þetta upp í einhvers konar myndrænt skipurit. Bið ég alla þá sem betur þekkja til að leiðrétta mig og þigg ég allar ábendingar heilshugar.
Eins og fram kemur í öðrum pistli sem ég skrifaði hér á síðunni undir heitinu ,,Lítið félag með stórt hlutverk“ er það varla ætlandi nokkurri manneskju að reka fag- og stéttarfélag í hjáverkum sem sjálfboðaliðar.
En kíkjum á ,,rannsóknarstarf“ mitt, myndrænt skipurit sem ég vona að gefi einhverja mynd af innra starfi Leiðsagnar og þeim veigamiklu hagsmunamálum sem eru á hendi fárra sjálfboðaliða.
Bið ég alla sem þetta lesa að virða viljann fyrir verkið og ég ítreka að allar ábendingar eru vel þegnar.
Mynd: Jóna Fanney Friðriksdóttir.
Samkvæmt mínum upplýsingum er samanlagt eitt stöðugildi (þ.e. starfsmaður á skrifstofu í 75% starfi og formaður í 25%) að sinna fag- og stéttarfélagi Leiðsögumanna. Önnur verkefni eru innt af hendi af sjálfboðaliðum sem ekkert endilega hafa sérfræðiþekkingu á þeim margvíslegu verkefnum sem heyra hér undir.
Ef við lokum öðru auganu og hugsum bara um stéttarfélagshlutverkið, má spyrja hvort þetta fyrirkomulag í innra skipulagi Leiðsagnar sé skilvirkt, ábyrgt og vel rökstutt?
Hvernig er mögulegt að sinna þeim margslungnu verkefnum, sem koma inn á borð stéttarfélags með sóma, í sjálfboðaliðastarfi?
Hefur Félag leiðsögumanna það bolmagn sem til þarf við úrlausn yfirgripsmikilla og oft á tíðum viðkvæmra málefna sem koma inn á borð stéttarfélaga og eru iðulega unnin af hópi sérfræðinga?
Hvernig skilgreinum við góða þjónustu við félagsmenn með hliðsjón af því að skrifstofa Leiðsagnar er opin í tvær klst. á dag virka daga og lokað á föstudögum?
Já, fjöldi áleitinna spuringa leita á hugann, en eins og fram kemur í öðrum pistlum hér á síðunni er er það skýrt í mínum huga að Leiðsögn – Félag leiðsögumanna þarf að fara í rækilega stefnumótunarvinnu, endurskoðun og skipulagsbreytingar.
Það er hins vegar ekki hlutverk formanns að ákveða hvort fara á í breytingar né hvernig þeim breytingum yrði háttað, heldur félagsmanna. ♦