JÓNA FANNEY

Kæru félagar – af alhug þakka ég ykkur stuðninginn í embætti formanns Félags leiðsögumanna!

 

Á aðalfundi Félags leiðsögumanna þ. 3. maí sl., var ég kosinn formaður félagsins.

Skipstjórinn í brúnni mun þó aldrei njóta aflasældar nema áhöfnin innanborðs sé skipuð kappsömu, traustu og hörkuduglegu fólki. Og það er sannarlega mikill fengur af því góða fólki sem kosið var í stjórn Leiðsagnar og aðrar trúnaðarstöður.

Um leið og við komumst með hendur á lyklaborð Leiðsagnar innan skamms mun ég einnig kynna ykkur allt það góða fólk sem kosið var í aðrar trúnaðarstöður leiðsagnar.

Þá ber ekki síst að þakka fráfarandi stjórn sem sinnt hefur ötulu og óeigingjörnu starfi undanfarin ár í þágu okkar félagsmanna. Ég met störf þessa fólk mikils, þótt hugmyndafræði okkar varðandi Félag leiðsögumanna, stefna og markmið gætu verið ólík.

Ég gantaðist við fráfarandi formann á fundinum í gær að nú væri ég tekin við keflinu sem ,,óvinsæli gaffallinn í skúffunni”, því ósjaldan sætir fólkið sem er í eldlínunni gagnrýni. Stundum á sú gagnrýni rétt á sér, en langoftast er hún óréttmæt.

Sjálf met ég mikils að fá að vita hvað við í stjórn getum gert betur, fremur en gagnrýni á störf okkar fari eingöngu fram á kaffistofunni á Geysi!

Mér finnst mikilvægt að fram komi að afar mjótt var á munum milli okkar Friðriks Rafnssonar í formannskjörinu. Aðeins tvö atkvæði skildu á milli. Sú niðurstaða sýnir vel að fjöldi félagsmanna hefur verið mjög ánægður með störf Friðriks sl. tvö ár.

En eins og gamall samstarfsfélagi minn orðaði það svo oft; ,,Helvítis lýðræðið alltaf að þvælast fyrir.”

Í spjalli okkar Friðriks eftir fundinn sýndi hann mér mikla velvild, bauð fram aðstoð sína og upplýsingar ef á þarf að halda. Það finnst mér virðingar- og þakkarvert.

Eins og ég hef bent á, hér á kynningarsíðunni fyrir framboð mitt, eru það einkum þrjú veigamikil atriði sem ég mun leggja höfuðáherslu á í komandi stjórnarsamstarfi:

 

  • Leiðrétting launa leiðsögumanna í komandi kjarasamningum
  • Sameining og samstaða allra leiðsögumanna sem starfa hérlendis
  • Mótun skilvirkrar framtíðarsýnar Félags leiðsögumanna

…auk alls hins.

Nýkjörin stjórn er full eldmóðs. Við ætlum að efla upplýsingaflæði til félagsmanna til muna, m.a. með því að senda reglulega út rafrænt fréttabréf.

En án stuðnings og þátttöku grasrótarinnar erum við lítils megnug, félagið okkar þarf fleiri hendur og raddir upp á dekk. Því vona ég að heyra sem mest frá ykkur og býð ykkur velkomin á skrifstofu félagsins til skrafs og ráðagerða.

STÖNDUM SAMAN!

VÖXUM SAMAN!

Að því sögðu fer ég á ljóðrænu nóturnar og leyfi stórskáldinu Einari Ben að eiga hér siðasta orðið með einni línu úr kvæði hans Fákum, sbr. ljóðlínurnar hér t.h.

Jóna Fanney Friðriksdóttir

Jóna Fanney Friðriksdóttir

ÁSTÆÐA FRAMBOÐS

 

Það er von mín að sú reynsla og þekking sem ég hef aflað á fjölbreyttum starfsferli geti orðið að gagni hjá félagi leiðsögumanna. 

Ég öðlaðist réttindi sem leiðsögumaður frá Leiðsögu-skólanum í Kópavogi árið 1987 og henti mér þá um sumarið strax í djúpu laugina. Á þessum árum stundaði ég nám í Þýskalandi, kom iðulega heim á sumrin og varði þeim tíma í langferðum með ensku- og þýskumælandi hópa.

Í gegnum árin hef ég verið í krefjandi stjórnunarstörfum en  leiðsögumannastarfið var á þessum tíma alltaf innan seilingar í sumarleyfum.  Á þeim tíma var ég mikið í hestaleiðsögn á sumrin og gat þannig undið ofan af mér, hlaðið batteríin og mætt endurnærð til starfa á ný.

Fyrir nokkrum árum ákvað ég að söðla um og sagði ég upp fastri stöðu framkvæmdastjóra skiptinemasamtaka AFS, því mig langaði til að stíga út fyrir þægindahringinn og starfa sjálfstætt. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun, það á mjög vel við mig að sinna fjölbreyttum verkefnum og hafa marga bolta á lofti. Leiðsögnin hefur á þessum tíma verið mitt akkeri.

Meðfram leiðsögninni hef ég þessi ,,sjálfstæðu ár“ mín, m.a. starfað við viðskiptaráðgjöf og aðstoðað við gerð styrkumsókna, s.s. vegna styrkja hjá Rannís ofl. Einnig hef ég staðið fyrir Erasmus+ námskeiðum gegn hatursorðræðu og fordómum sem haldin voru í Marokkó og Grikklandi. Um árabil hef ég jafnframt verið stundakennnari við ferðamáladeild Háskólans á Hólum og kennt þar um á námskeið sem kallast Stjórnsýsla ferðamála – Lög, reglur og öryggi í ferðaþjónustu á Íslandi.

Auk viðamikillar reynslu af stjórnarstörfum og stjórnsýslu, bý ég að áratuga reynslu af starfi í félagasamtökum. Ég gerðist skiptinemi með AFS þegar ég var 16 ára gömul og hef fylgt þeim félagasamtökum allar götur síðan, sem sjálfboðaliði í stjórn, sem almennur starfsmaður og síðar framkvæmdastjóri.

Ég hef sinnt fjölda annarra trúnaðarstarfa í gegnum tíðina, sat m.a. í stjórn Landverndar sem gjaldkeri og stjórn Almannaheilla sem eru samtök þriðja geirans. Náttúruvernd, samfélagsmál og velferð eru málefni sem eru mér hugleikin.

Margt hefur áunnist í starfi Leiðsagnar sem ber að þakka óeigingjörnu starfi félagsmanna allt frá stofnun félagsins. Að mörgu er þó að hyggja og verkefnin framundan ærin.  Í þau þarf að ganga í af röggsemi á tímum mikilla umbreytinga í  ferðaþjónustu á Íslandi.

Þar tel ég að öflug stefnumótun með grasrótinni sé forgangsverkefni. Hvert viljum við leiðsögumenn stefna og hver er okkar framtíðarsýn? – Þetta er spurning sem leiðsögumenn þurfa að svara sjálfir. Nánar má kynna sér mína sýn og hugleiðingar hér á síðunum.

Ég tel mig hafa fjölbreyttan bakgrunn og reynslu til að sinna formennsku í félagi leiðsögumanna. Er það von mín að geta nýtt krafta mína í þágu félagsmanna og þeirra fjölmörgu verkefna sem á þeim og starfsstéttinni brenna.  ♦

Með bestu sumarkveðju,